1. Sigurður Þ. Ragnarsson
 2. Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
 3. Jónas Henning
 4. Gísli Sveinbergsson
 5. Arnhildur Ásdís Kolbeins
 6. Elínbjörg Ingólfsdóttir
 7. Ingvar Sigurðsson
 8. Magnús Pálsson
 9. Sævar Gíslason
 10. Ásdís Gunnarsdóttir
 11. Davíð Gígja
 12. Bjarni Bergþór Eiríksson
 13. Sigurður F. Kristjánsson
 14. Haraldur J Baldursson
 15. Skúli Alexanderson
 16. Rósalind Guðmundsdóttir
 17. Árni Guðbjartsson
 18. Guðmundur Snorri Sigurðsson
 19. Tómas Sigurðsson
 20. Árni Þórður Sigurðarson
 21. Kristinn Jónsson
 22. Nanna Hálfdánardóttir


Miðflokkkurinn kynnir Sigurð Þ. Ragnarsson sem skipar 1. sætið á lista Miðflokksins í Hafnarfirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Sigurður Þórður, fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 13. febrúar 1967 og er því 51 árs. Foreldrar hans eru Ragnar Jóhannesson stýrimaður og skipstjóri fæddur í Hafnarfirði 1930 og Mjöll Sigurðardóttir skrifstofumær, fædd í Reykjavík 1937 (dáin 1995). Faðir Sigurðar er Hafnfirðingur í marga ættliði. Í móðurætt er Sigurður ættaður frá Snæfellsnesi og Breiðafjarðareyjum.

Eiginkona Sigurðar er Hólmfríður Þórisdóttir fædd 1966. Og eiga þau þrjá stráka, Þóri Snæ 29 ára, Árna Þórð 25 ára og Bessa Þór 19 ára.

Sigurður ólst upp í Hafnarfirði og hefur búið þar nær alla sína tíð. Hann lauk stúdentsprófi frá Flensborg 1987. Þaðan lá leiðin í háskóla þar sem hann lagði stund á nám í jarðfræði, efnafræði og veðurfræði. Hann öðlaðist kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla 1996.

Á unglingsárum starfaði Sigurður hjá Álverinu í Straumsvík við almenn verkamannastörf. Á háskólaárunum starfaði hann sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli og í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Hann starfaði á Raunvísindastofnun Háskólans um tíma, sérfræðingur á efnafræðistofu Hitaveitu Reykjavíkur (nú Orkuveitan), einnig hjá Selfossveitum bs. (Hitaveitu Selfoss) og verið framhaldsskólakennari raungreinum í áratugi, bæði á Selfossi og á höfuðborgarsvæðinu þ.á.m. Flensborg. Starfaði um þriggja ára skeið sem fréttamaður á RÚV sjónvarp, veðurfréttamaður á Stöð 2 í 16 ár og hefur rekið sitt eigið fyrirtæki síðan 2003.

Áhugamál Sigurðar eru fjölbreytt. Menntun hans endurspeglar mikinn áhuga á náttúrunni. Ferðalög á öllum tíma árs heilla hann mjög. Hálendisferðir geta verið magnaðar. Hann er mikill hundamaður og hefur átt hund frá 12 ára aldri. Hann hefur mikinn áhuga á gömlum uppgerðum bílum. Hann elskar Spán. Þá heilla hann góðar fræðibækur á sviði læknis-, lyfja- og náttúrufræða.

Sigurður hefur tekið virkan þátt í stjórnmálum frá unga aldri og haft mestan áhuga á nærumhverfinu. Velferðarmál og málefni eldri borgara eru honum hugleikinn, enda margt sem þarf að ráðast í þar. Húsnæðimál í bænum sömuleiðis, en skipulag í þeim málum hefur beðið skipbrot. Sömu sögu er að segja um aðstöðumál íþróttafélaga í Hafnarfirði. Þar er þörfin afar brýn. Lengi má gott bæta.


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Bjarneyju Grendal Jóhannesdóttur sem situr í 2. sæti listans.

Bjarney Grendal er 37 ára og hefur búið í Hafnarfirði í 11 ár. Hún er uppalin í sveitinni vestur á Mýrum, nánar tiltekið í Krossnesi í Álftarneshreppi. Bjarney er í sambúð með Ingvari Sigurðssyni og saman eiga þau fjögurra ára son, Sigurð Ingvarsson, en fyrir á Ingvar eina 22 ára dóttur, Evu Írenu.

Bjarney Grendal er stúdent frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla og lá þaðan leiðin í Kennaraháskóla Íslands. Hún útskrifaðist þaðan vorið 2007 og hóf starf sem grunnskólakennari í Smáraskóla í Kópavogi þá um haustið og hefur starfað þar síðan.

Bjarney er mikil útivistarmanneskja og líður best úti í náttúrunni með fjölskyldunni í félagsskap við hestana sína eða í göngu með hundinn. Hún vill passa upp á grænu svæðin í bænum, efla aðgengi að þeim og halda vel utan um málefni útivistar og heilsueflandi samfélags.

Bjarney Grendal hefur mikinn áhuga á skólamálum og líðan nemenda í skólum. Hún vill vinna hörðum höndum að því að snúa þeirri þróun við sem á sér stað varðandi aukinn kvíða og þunglyndi hjá ungum stúlkum og sporna við námsleiða og brottfalli hjá ungum drengjum. Bjarney lifir eftir einföldum gildum en þau eru að koma vel fram við náungann og gefa til baka til samfélagsins. Með þessi gildi að leiðarljósi ætlar hún að leggja sig alla fram við að vinna í þágu allra Hafnfirðinga.


Miðflokkurinn kynnir Gísla Sveinbergsson sem skipar fjórða sæti á lista flokksins í Hafnarfirði.

Gísli fæddist á Blönduósi 20. september 1944 og ólst þar upp. Hann fluttist til Hafnarfjarðar 1966 og hefur búið þar síðan.

Gísli er kvæntur Guðrúnu Benediktsdóttur sem fædd er og uppalin í Hafnarfirði. Hann kynntist henni á Kvennaskólanum á Blönduósi. Gísli og Guðrún eiga fjögur börn, þau heita Benedikta, Sveinberg, Sigurjón og Svanur og eru öll búsett í Hafnarfirði.

Gísli er málarameistari og nam málaraiðn hjá Sigurði Snorrasyni á Blönduósi. Eftir kynni hans og Guðrúnar fluttist hann til Hafnarfjarðar. Hann var svo heppinn að fá vinnu við málningarvinnu hjá Sigurði Kristinssyni málarameistara í bænum. Hann vann í sínu fagi við uppbyggingu álversins í Straumsvík og víðar. Gísli stofnaði fyrirtækið Málaraverktaka árið 1972 sem sonur hans Sveinberg rekur í dag.

Gísli er mikill félagsmálamaður og hefur unnið að félagsstörfum í yfir 45 ár og hefur haft gaman af. Meðal félagsstarfa má nefna störf fyrir Björgunarsveit Fiskakletts, í Meistarafélagi iðnaðarmanna og Lionsklúbbnum Ásbirni í Hafnarfirði. Í gegnum þessi störf hefur hann eignast alveg frábæra vini og félaga hér í bæ.

Gísli er afar öflugur einstaklingur sem er ungur í anda og langar að láta gott af sér leiða fyrir íbúana hér í þessum fallega bæ okkar.

Gísli biður um stuðning Hafnfirðinga fyrir kosningarnar á laugardaginn kemur, 26. maí og biður fólk að setja x við M á kjördag.


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Arnhildi Ásdísi Kolbeins, en hún situr í 5. sæti listans.

Ásdís er 56 ára og hefur búið í Áslandinu í tæp 15 ár ásamt eiginmanni sínum Þórarni Kristjáni Ólafssyni verkfræðingi. Þau eiga samtals sjö börn sem öll eru á fullorðinsaldri nema yngsti sonurinn sem er 9 ára og er í Áslandsskóla.

Ásdís var deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu í 13 ár en hóf síðan atvinnurekstur ásamt eiginmanni sínum fyrir hartnær aldarfjórðungi. Þau reka í dag ásamt fleirum þrjú fyrirtæki, RST Net, Ljósvirkja og Hraunsali sem öll eru staðsett í Hafnarfirði.

Ásdís er viðskiptafræðingur að mennt og með MPM meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands. Í dag leggur hún stund á meistaranám í viðskiptalögfræði samhliða vinnu og hyggst ljúka ML gráðu frá Háskólanum á Bifröst vorið 2020.

Ásdís er fædd og uppalin í sveit og er mikið náttúrubarn. Hennar helstu áhugamál eru útivist, göngur, skógrækt og garðyrkja.

Ásdís er ósérhlífin, leggur mikinn metnað í það sem hún tekur sér fyrir hendur og hefur ánægju af því að takast á við nýjar áskoranir. Hún hefur sterkar skoðanir og góða þekkingu á málefnum samfélagsins. Rökhyggja og skynsemi við úrlausn mála ásamt áherslu á íbúalýðræði eru þau gildi Miðflokksins sem höfða mest til Ásdísar og þess vegna vill hún leggja sitt af mörkum með Miðflokknum til að gera gott samfélag enn betra.


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Elínbjörgu Ingólfsdóttur sem situr í 6. sæti listans

Elínbjörg hefur búið í Áslandinu í Hafnarfirði síðan 2004 ásamt eiginmanni sínum Vigfúsi Markússyni skipstjóra/stýrimanni á Tjaldi SH 270 og hundinum Tinnu. Þau eiga eina dóttur, Ásu Magneu ljósmyndara sem er í sambúð með Ellert Hlöðverssyni bankamanni.

Elínbjörg er fædd og uppalin á Siglufirði, bjó þar til tvítugs er heimdraganum var hleypt og flutt til Reykjavíkur til að hefja nám við Fiskvinnsluskólann i Hafnarfirði sem þá var og hét. Eftir það nám flutti hún á Eyrarbakka og vann þar við t.d skrifstofustörf, safnvörslu en lengst af sem fangavörður og aðstoðarvarðstjóri við fangelsið Litla Hraun. Elínbjörg lauk prófi frá Fangavarðaskólanum samhliða vinnu sinni í fangelsinu. Í dag starfar hún sem öryggisvörður við Landspítala Háskólasjúkrahús.

Elínbjörg er heilsteypt manneskja með skoðanir og mikla réttlætiskennd, sem vill bænum sínum Hafnarfirði allt það besta og vinna að uppbyggingu sem allir Hafnfirðingar munu geta notið góðs af, jafnt ungir sem og þeir sem eldri eru. Telur hún kröftum sínum best varið í vinnu fyrir Miðflokkinn


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Ingvar Sigurðsson sem situr í 7. sæti listans.

Ingvar Sigurðsson er 48 ára og er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði. Hann er í sambúð með Bjarneyju Grendal Jóhannesdóttur, grunnskólakennara, og eiga þau saman 4 ára son, Sigurð Ingvarsson, en fyrir á Ingvar 22 ára dóttur, Evu Írenu.

Ingvar hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur m.a. starfað við ljósmyndun, verið bóndi í afleysingum, rekið fyrirtæki og stundað strandveiðar svo eitthvað sé nefnt. Hann tók eitt ár í Flensborg en hætti þar og hóf að læra ljósmyndun hjá atvinnuljósmyndara og varð fljótlega afar fær í því fagi. Hann vann í fjölskyldufyrirtækinu, Barðanum hjólbarðaverkstæði, í fjöldamörg ár. Stundaði strandveiðar nokkur sumur og hefur síðan unnið við smíðar og ýmsa viðhaldsvinnu fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.

Ingvar hefur átt sér mörg áhugamál um ævina. Hann hefur m.a. stundað hestamennsku í 25 ár og verið þó nokkuð í jaðarsporti á sínum yngri árum eins og rallý, rallý kross, mótor kross og fleira.

Ingvar hefur sterkar skoðanir á hlutum. Hann er dugnaðarforkur og gefur sig alltaf 150% í þau störf sem hann tekur sér fyrir hendur. Ingvar er óhræddur við að kanna ótroðnar slóðir og er fljótur að tileinka sér vönduð vinnubrögð.


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Magnús Pálsson Sigurðsson sem situr í 8. sæti listans. 

Magnús P. Sigurðsson er 68 ára málarameistari. Hann flutti árið 1954 til Hafnarfjarðar með afa sínum og ömmu sem bjuggu allan sinn tíma á Vitastíg 5. Magnús á 3 börn, tvo stráka og eina stelpu. Þau starfa sem málarameistari, framkvæmdarstjóri og húsmóðir. 

Magnús gekk í barnaskóla Hafnarfjarðar. Fór þaðan í Flensborg og síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Magnús er félagslyndur maður og er meðlimur í Kiwanisklúbbnum Eldborgu. Magnús er mikill íþróttaunnandi. Hjarta Magnúsar slær fyrir Hafnarfjörð.


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Sævar Gíslason sem situr í 9. sæti listans.

Sævar Gíslason er 40 ára og hefur hann búið í Vallarhverfi Harfnarfjarðar síðan 2013 ásamt konu sinni Guðrúnu Eddu Bjarnadóttir deildarstjóra í leikskólanum Hvammi. Þau eiga tvö börn Gabriel Gísla 9 ára og Sylvíu Rut 15 ára og eru þau bæði í Hraunvallaskóla.

Sævar hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur unnið við hin ýmsu störf sem dæmi, dælumaður hjá steypustöð, leigubílstjóri í afleysingum og bílstjóri hjá prentsmiðju en hann starfar hjá Sixt Bílaleigu á Íslandi sem rekstrar og flotastjóri. 

Sævar menntaði sig að fullu um þrítugt og flutti til Danmerkur nánar tiltekið til Horsens með fjölskylduna árið 2008 og er menntaður þaðan sem véliðnfræðingur. Eftir flutning heim til Íslands að námi loknu hóf hann nám í Háskóla Íslands og sameinaði hann nám í fornleifafræði/landfræði. Helstu áhugamál Sævars eru ferðalög, jafnt utan sem innanlands, billiard, mótorhjól og knattspyrna. 

Sævar hefur ætíð haft skoðanir á hlutum og mikla réttlætiskennd, hann leggur hart að sér í vinnu, er drífandi og vinnur hluti skipulega og er óhræddur að tækla og klára þau verkefni sem honum er gefið. Sævar vill nota þennan kraft og áhuga til að bæta okkar góða samfélag ennfremur með skynsamlegri og lausnamiðaðri nálgun. Það er þessi nálgun sem heillaði Sævar í að bjóða sig fram fyrir Miðflokkinn.


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Ásdísi Gunnarsdóttur sem situr í 10. sæti listans. 

Ásdís er fædd og uppalin á Akranesi. Hún lauk gagnfræðiprófi árið 1973. Ásdís vann í fiski og í þrifum til ársins 2000. Þá fór hún að vinna á Arnarholti sem var starfrækt sem ein af geðdeildum Landspítalans. Í kjölfarið af því ákvað hún að hefja nám og lauk sjúkraliðanámi árið 2004. Ásdís hefur eftir það unnið á geðsviði Landspítalans við Hringbraut. Hún bætti við sig sérnámi í hjúkrun geðsjúkra á árunum 2010 - 2012.

Ásdís flutti frá Akranesi árið 2012, þá í Mosó, síðan flutti hún 2014 til Hafnafjarðar.


Miðflokkurinn í Hafnarfirði kynnir Nönnu Hálfdánardóttir sem situr í 22. sæti listans.

Nanna er fædd á Ísfirði 1933 og flutti til Hafnarfjarðar 1953 og hefur búið þar síðan að undanskildum nokkrum árum er hún bjó í Bandaríkjunum. Hún á 6 börn og samtals 70 afkomendur sem hún telur sinn mesta fjársjóð. Hún hefur fengist við ýmislegt í lífinu og m.a. opnaði hún í Hafnarfirði fyrsta reyklausa kaffihúsið á Íslandi og rak það í nokkur ár. Heilbrigðismál og heilbrigðis þjónusta er það sem hún brennur fyrir ásamt velferð ungra sem aldna. Nanna telur mikilvægt að allir hafi sömu möguleika í lífi og starfi óháð stétt og stöðu.